Innlent

Íslendingar nota mest af raforku

Aukning raforkunotkunar Íslendinga á síðasta ári er sú mesta í tæpa tvo áratugi. Raforkunotkun á íbúa er sú mesta í heiminum hér á landi og á síðasta ári notaði hver Íslendingur að meðaltali 29.500 kílóvattstundir af raforku. Þetta er meðal þeirra niðurstaðna sem fram koma í samantekt Orkuspárnefndar sem birt var nýlega. Í samantektinni kemur fram að raforkunotkun hér á landi hefur aukist mikið síðustu árin, aðallega vegna eflingar orkufreks iðnaðar. Almenn notkun hefur einnig vaxið talsvert en árin 2002 og 2003 dró nokkuð úr þeim vexti. Árið 2004 jókst hann að nýju og hefur notkun almennrar forgangsorku ekki vaxið jafn mikið frá árinu 1987. Raforkunotkun á íbúa er sú mesta í heiminum hér á landi og á síðasta ári notaði hver Íslendingur að meðaltali 29.500 kílóvattstundir af raforku og er þar bæði um að ræða notkun heimila, fyrirtækja, og stóriðju. Til samanburðar notar meðalheimilið um 4.000 kílóvattstundir af raforku til annarra þátta en hitunar húsnæðis. Árið 2004 nam raforkuvinnsla á landinu samtals 8.619 GWh (ein GWh, gígavattstund er milljón kílóvattstunda) og hafði þá aukist um 1,5% frá árinu áður. Raforkunotkun stóriðjuveranna nam 5.231 GWh en almenn notkun 3.134 GWh. Notkun stóriðju stóð í stað frá árinu 2003 eftir mikla aukningu á árunum 1996-2003. Aukin notkun stóriðju á þeim árum er álíka mikil og öll almenn notkun á landinu á síðasta ári.  Orkuspárnefnd gefur á hverju ári út spá um raforkunotkun landsmanna og á um fimm ára fresti er spáin endurskoðuð frá  grunni og birt í ítarlegu riti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×