Innlent

Hlýnandi veður og blautt færi

Hlýnandi veðri er spáð um allt land eitthvað fram í næstu viku. Um helgina verður milt veður og hægur vindur. Því eru líkur á ágætis veðri en blautu færi fyrir skíðamenn samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu. Erfitt að spá fyrir um veður um páskahelgina sjálfa og verða spenntir skíðaiðkendur því að bíða fram í næstu viku til að sjá hvert skuli halda í fríinu. Páskarnir eru stærsta vertíð skíðasvæðanna alls staðar á landinu og eru því ýmsar uppákomur skipulagðar. Skíðavika Ísfirðinga verður haldin í sjötugasta skipti í ár og er búist við allt að 2000 gestum til Ísafjarðar. Dagskrá skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins er ekki ljós en eitthvað verður um uppákomur. Skíðasvæðin eru opin núna og nægur snjór að sögn kunnugra. Spá næstu daga er þó ekki mjög hagstæð skíðamönnum sunnanlands. Unglingalandsmót verður á skíðasvæði Siglfirðinga um helgina og fjölskylduhátíð um páskana. Þar eru allar lyftur og skíðaleiðir opnar. Nægur snjór er í Hlíðarfjalli að sögn Guðmundar Karls, forstöðumanns á svæðinu, og spáin þeim hagstæð næstu daga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×