Innlent

Ofvirknilyf meðal söluhæstu lyfja

Geðlyf sem aðallega er gefið börnum er meðal söluhæstu lyfja síðasta árs. Áttatíu prósenta aukning varð á notkun lyfsins milli ára og eru engin fordæmi fyrir slíku. Í fyrsta sinn er lyf við athyglisbresti með ofvirkni á lista yfir þau tíu lyf sem Tryggingastofnun greiddi mest fyrir á síðasta ári. Lyfið Concerta er í 8. sæti á listanum en var árið 2003 í 26. sæti. Lyfið er nær eingöngu gefið börnum. Í því er sama örvandi innihaldsefnið og í rítalíni sem er skylt amfetamíni. Concerta eru forðatöflur og því auðveldari í notkun en rítalín og lyfið er að leggja undir sig markaðinn þrátt fyrir að það sér dýrara. Það örvar miðtaugakerfið en ekki er vitað hver verkunarmátinn er við athyglisröskun með ofvirkni. Það er þó mikið rannsakað og talið ágætt með annarri meðferð. Inga J. Arnardóttir, deildarstjóri lyfjamála hjá Tryggingastofnun ríkisins, segir að það hafi komið sér verulega á óvart hversu ofarlega á listann Concerta sé komið. Hún segir að kostnaður vegna þess hafi aukist um 104 prósent og notkun þess hafi aukist um 80 prósent miðað við skilgreinda dagskammta. Það hljóti að vekja einhverja til umhugsunar. Einnig er umhugsunarverðar upplýsingar að finna í skýrslu Lyfjaeftirlitsstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Þar kemur fram að notkun Íslendinga á lyfjum eins og rítalíni og Concerta hefur aukist um 500 prósent á fimm árum. Það þýðir að miðað við höfðatölu nota Íslendingar þessi lyf mest allra. Árið 2002 spáði Jóhann Ágúst Sigurðsson, prófessor í heimilislækningum, að þessi þróun myndi eiga sér stað. Þá óttast hann að enn muni neyslan aukast meðal annars vegna kröftugrar markaðssetningar lyfsins. Hann segir athyglisvert að fylgjast með því í Bandaríkjunum að farið sé að gefa lyfið í forvarnaskyni og þá beinist athyglin einnig að fullorðnu fólki sem sé með athyglisbrest. Jóhann Ágúst segir að í Bandaríkjunum sé það almenningur sem stigið hafi á bremsuna, ekki fagaðilar. Af ýmsum ástæðum sé slík lyfjagjöf komin úr böndunum hér á landi og þar vísar hann í dæmi um bekkjardeild úti á landi þar sem 10 prósent nemendanna eru greind ofvirk. Hann segir löngu tímabært að grafast fyrir um raunverulegar ástæður þessa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×