Innlent

Vegir bættir í Svínahrauni

Framkvæmdir eru hafnar í Svínahrauni þar sem leggja á nýjan veg og breikka hluta hringvegarins. Verklok eru áætluð síðar á árinu en markmiðið er að auka öryggi vegfarenda. Fyrstu vinnuvélar á vegum verktakafyrirtækisins KNH á Ísafirði eru komnar í Svínahraun og var jarðýta í dag að ryðja hraunið fyrir nýjan vegarkafla á þjóðvegi eitt. Verður hringvegurinn breikkaður á tveggja kílómetra kafla og nýr vegur lagður fyrir neðan Hveradalabrekku. Markmiðið er að auka öryggi í umferðinni. Með nýja veginum hverfa tvær slysagildrur sem báðar hafa kostað mannslíf. Önnur þeirra er varasöm beygja neðan Skíðaskálabrekkunnar, en vegurinn mun nú liggja beint yfir Svínahraun. Hin er Þrengslagatnamótin þar sem síðast varð banaslys fyrir rúmri viku. Ungur maður lést og níu slösuðust, þar af þrír alvarlega. Einn þeirra er enn á gjörgæsludeild en er kominn úr öndunarvél. Fleiri vinnuvélar eru væntanlegar á svæðið en vegurinn á að vera tilbúinn í lok september á þessu ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×