Innlent

Hundrað þúsund bækur seldust

Slegið er á að um eitt hundrað þúsund eintök af bókum og blöðum hafi selst á nýafstöðnum bókamarkaði Félags íslenskra bókaútgefenda í Perlunni. Líkt og vanalega var verðbil lesefnisins mikið og hægt að fá gömul blöð og tímarit á 50-100 krónur stykkið og nýlegar bækur á nokkur þúsund. Benedikt Kristjánsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bókaútgefenda, segir að fleiri eintök hafi selst nú en áður en andvirðið sé aðeins minna en í fyrra. Ástæðan liggur í verðlækkun. "Það var greinilegt að menn vildu hreinsa til á sínum lagerum og voru tilbúnir að fara með verðið niður úr öllu valdi eins og maður segir." Benedikt giskar á að um 50 þúsund manns hafi komið á markaðinn þá tíu daga sem hann stóð og veit fyrir víst að sumir komu oftar en einu sinni. Eins og gengur gengu sumir tómhentir út en aðrir klyfjaðir lesefni sem ýmist verður lesið upp til agna næstu vikur eða safnar ryki í bókahillum. Fyrsti bókamarkaður Félags íslenskra bókaútgefenda var haldinn fyrir um hálfri öld og sáu bóksalarnir Jónas Eggertsson og Lárus Blöndal um hann. Næsti stóri bókaviðburður verður upp úr miðjum apríl þegar sjálf vika bókarinnar er haldin en hún nær hámarki á alþjóðlegum degi bókarinnar, 23. apríl.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×