Innlent

Vonsvikin með ákvörðun Ríkiskaupa

Miðstjórn Samiðnar lýsir yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun Ríkiskaupa um að hafna tilboði Slippstöðvarinnar í viðgerðir á Ægi og Tý og taka pólsku tilboði, í tilkynningu sem samtökin hafa sent frá sér. Þar segir einnig að munurinn á tilboðunum hafi verið óverulegur og að ákvörðunin lýsi metnaðarleysi íslenskra stjórnvalda fyrir hönd íslensks iðnaðar og skort á vilja til að halda verkefnum í skipaiðnaði í landinu. Miðstjórnin bendir á að ekki liggi fyrir að þurft hafi að bjóða verkefnið út á Evrópska efnhagssvæðinu og segir aðrar þjóðir beita ýmsum leiðum til þess að halda mikilvægum verkefnum í landi þrátt fyrir tilvist samningsins. Þá lýsir miðstjórnin yfir ánægju sinni með að íslenskur skipaiðnaður skuli standast erlend tilboð frá löndum sem hafa aðgang að ódýru vinnuafli eins og tilboð Slippstöðvarinnar sýni. Einnig bendir fundurinn á að í samanburðinum hafi ekki verið tekið tillit til þess óbeina hagnaðar sem kemur til ef verkið sé gert hér á landi. Miðstjórn Samiðnar skorar loks á fjármálaráðherra, dómsmálaráðherra og iðnaðarráðherra að beita sér fyrir því að ákvörðun Ríkiskaupa um að taka hinu pólska tilboði verði endurskoðuð og tryggja að viðgerðir á Ægi og Tý fari fram í íslenskum skipasmíðastöðvum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×