Innlent

Segir EES-útboð hafa verið nauðsyn

Ríkiskaupum bar að bjóða endurbætur á varðskipunum Tý og Ægi út á Evrópsska efnahagssvæðinu og með því sparast rúmar sjö milljónir króna. Samningurinn við pólsku skipasmíðastöðina er bindandi og verður ekki rift án greiðslu skaðabóta, að sögn yfirlögfræðings Ríkiskaupa. Járniðnaðarmenn hafa harðlega gagnrýnt Ríkiskaup fyrir að semja við pólska skipasmíðastöð um endurbæturnar á Tý og Ægi. Þeir hafa sagt að ekki hefði þurft að bjóða verkið út á Evrópska efnahagssvæðinu. Guðmundur I. Guðmundsson, yfirlögfræðingur Ríkiskaupa, segir það ekki rétt. Kostnaður við verkið hafi verið metinn yfir þeim 17,5 milljóna króna mörkum sem gera það skylt að fara í útboð. Guðmundur segir það hafa verið alveg skýrt í útboðinu hverjar reglurnar væru. Í útboðsgögnum komi fram hvernig staðið sé að vali á þeim sem vinni verkið. Ákveðnum atriðum hafi verið stillt upp og hagstæðasta tilboði tekið, í þessu tilviki frá pólsku skipasmíðastöðinni. Í framhaldi hafi verið gerður skriflegur samningur og honum verði ekki rift nema til bóta komi af hálfu Ríkiskaupa. Samningurinn sé því bindandi. Gagnrýnin hefur einnig snúist um að Ríkiskaup hafi ekki tekið með í reikninginn hversu kostnaðarsamt það sé að fara með skipin til Póllands. Guðmundur neitar því og segir kostnaðinn við það hafa verið metinn 5,8 milljónir króna. Hann haldi að tvisvar sinnum áður hafi verið farið með skipin til Póllands þannig að menn viti nokkuð vel hversu mikið það kosti. Sparnaðurinn sem hlýst af því að gera við skipin í Póllandi verði því rúmar sjö milljónir króna miðað við næstlægsta tilboð. En hvað með þær staðhæfingar að kostnaður hafi farið langt fram úr áætlun í fyrri skipti þegar skip hafa verið send til Póllands til viðgerða? Guðmundur segir að sér sé ekki kunnugt um að kostnaður hafi ekki staðist en það kunni hins vegar að vera að menn hafi látið vinna einhver aukaverk í leiðinni. Landhelgisgæslan geti svarað því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×