Innlent

Gert verði við varðskip hér heima

Samtök iðnaðarins lýsa miklum vonbrigðum yfir að enn skuli gengið fram hjá íslenskum skipasmíðastöðvum og samið við stöð í Póllandi vegna viðgerða á varðskipunum Landhelgisgæslunnar. Skorað er á ráðherra að taka af skarið og beita sér fyrir því að viðgerðir varðskipanna fari fram hér á landi. Ríkiskaup hafa samið við pólska skipasmíðastöð um endurbætur á varðskipunum Ægi og Tý þrátt fyrir að íslenskt fyrirtæki hafi einnig boðið í verkið. Í tilkynningu frá Samtökum iðnaðarins segir að með þessu sé endurtekin sama sagan og fyrir þremur árum þegar skipin voru send í endurnýjun til Póllands. Þá varð viðgerðin á Tý tæplega 60 prósentum dýrari en samið var um og á Ægi tæplega 90 prósentum dýrari. Slippstöðin var meðal þeirra sem bauð í verkið. Samkvæmt þeim tölum sem fyrir liggja er munurinn á tilboði Slippstöðvarinnar og pólsku skipasmíðastöðvarinnar aðeins 13 milljónir. Guðmundur Tulinius, forstjóri Slippstöðvarinnar, segir muninn lítinn og að hann sé sannfærður um að kostnaður við að vera með verkin í Póllandi sé meiri en sem nemi muninum á tilboðunum. Og hljóðið var þungt í mönnum á fundi Félags járniðaðarmanna sem fram fór á Norðurlandi í dag. Félagið mótmælir einnig ákvörðun Ríkiskaupa og bendir á að í skýrslu sem félagið fékk hjá VSÓ ráðgjöf um kostnað við siglingu varðskipa til Póllands komi fram að það yrði nokkur hundruð þúsund krónum ódýrara að gera við skipin hér heima. Sagan endurtaki sig þrátt fyrir yfirlýsingar ráðamanna á Alþingi fyrir fjórum árum og það geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir íslenska járniðnaðarmenn. Hákon Hákonarson, formaður Félags járniðnaðarmanna, segir verkefnið stórt á íslenskan mælikvarða og samkvæmt þeim upplýsingum sem hann hafi hefði það verið leikur einn að ganga til viðræðna við Slippstöðina og láta á það reyna hvort ekki tækjust samningar. Þetta hafi verið alvarlega frétt helgarinnar fyrir Félag járniðnaðarmanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×