Innlent

Lyfjakostnaður gæti verið lægri

Ætla má að greiðslur almannatrygginga hefðu verið ríflega þremur milljónum króna lægri dag hvern allt síðasta ár ef smásöluverð lyfja væri það sama hér á landi og í Danmörku. Samt hefur kostnaður Tryggingastofnunar vegna söluhæstu lyfjanna dregist saman á milli ára. Greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins fyrir tíu söluhæstu lyfin voru um 1,7 milljarðar króna á síðasta ári. Þá er ótalinn hlutur sjúklings í lyfjakaupunum. Stofnunin hefur borið saman smásöluverð á þessum tíu lyfjum á Íslandi og í Danmörku. Öll eru lyfin dýrari hér, allt frá 1,8 prósentum upp í 1145 prósent eins og blóðfitulækkandi lyfið Zivacor. Það er íslenskt samheitalyf frá Actavis. Íslendingar borga meira en 10 þúsund krónur fyrir pakkninguna en Danir borga 807 krónur. Gera má ráð fyrir að greiðslur almannatrygginga hefðu lækkað um rúmlega 300 milljónir króna, eða að meðaltali tæplega 18 prósent, fyrir tíu söluhæstu lyfin ef sama smásöluverð gilti hér og í Danmörku. Það er um 820 þúsund króna sparnaður dag hvern allt síðasta ár. Samt hefur kostnaðurinn dregist saman milli ára hjá Tryggingastofnun. Inga J. Arnardóttir, deildarstjóri lyfjamála hjá Tryggingastofnun ríkisins, segir að ef heilbriðgisráðherra hefði ekki gert samninga í fyrra um verðlækkun á lyfjum hefði kostnaður stofnunarinnar sennilega verið 250 milljónum króna meiri. Hér er aðeins verið að tala um 10 söluhæstu lyfin en heildarkostnaður almannatrygginga vegna lyfja nam rúmum 6,4 milljörðum á síðasta ári. Ef við gefum okkur áfram að lyfin séu að meðaltali 18 prósentum lægri í Danmörku en hér þá væri kostnaður ríflega þremur milljónum króna minni dag hvern ef smásöluverð lyfjanna væri það sama hér og í Danmörku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×