Erlent

Spjótin beinast að Kútsjma

Júrí Lútsenkó, innanríkisráðherra Úkraínu, lét í gær hafa eftir sér beinskeyttustu viðvörunina sem hin nýja ríkisstjórn landsins hefur fram til þessa beint að Leoníd Kútsjma, fyrrverandi forseta, varðandi rannsóknina á morði á blaðamanni sem framið var fyrir nærri fimm árum. Úkraínska vefritið Grani Plus Web birti í gær viðtal við Lútsenkó, þar sem hann segir að bréf sem Júrí Kravtsjenkó, fyrrverandi innanríkisráðherra sem fannst látinn fyrir viku, skildi eftir sig, "setti alla punktana yfir i-in". "Ég tel persónulega að dauði Kravtsjenkós hershöfðingja sé viðurkenning á sekt hans," er haft eftir Lútsenkó. Það lítur út fyrir að Kravtsjenkó hafi svipt sig lífi, en sama daginn og hann fannst látinn, 4. mars, stóð til að yfirheyra hann um mál blaðamannsins Heorhiy Gongadze, sem var numinn á brott og myrtur um mitt ár 2000. Mál Gongadzes vakti alþjóðlega athygli, en hann var kunnur fyrir rannsóknarblaðamennsku sína á spillingu í stjórn Kútsjma forseta. Lútsenkó sagði í viðtalinu að nú "gæti Kútsjma fyrrverandi forseti, sem hershöfðinginn [Kravtsjenkó] nefnir í bréfi sínu, ekki mætt fólki augliti til auglitis með hreina samvisku." Kútsjma hefur vísað á bug öllum ásökunum á hendur sér og á fimmtudag fór hann af sjálfsdáðum á fund saksóknara til að svara spurningum hans. Talsmaður Kútsjma ítrekaði að forsetinn fyrrverandi segðist hafa hreina samvisku. Andstæðingar Kútsjma hafa lengi haldið því fram, að hann hafi fyrirskipað morðið á Gongadze. Morðið á Gongadze og birting hljóðupptöku, þar sem rödd sem virðist vera Kútsjmas fer með formælingar um blaðamanninn, vakti mikla reiði meðal Úkraínumanna og varð kveikjan að mótmælaöldu sem þróaðist yfir í þá sterku stjórnarandstöðuhreyfingu sem tókst að steypa Kútsjma af stalli í vetur. Nýi forsetinn Viktor Jústsjenkó hefur sagt að lausn Gongadze-málsins væri honum og ríkisstjórn sinni mikið metnaðarmál.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×