Innlent

Að komast hjá fordómum

Þeir sem gefa sér tíma til að kynnast menningu og íbúum annarra landa læra að setja fólk ekki í flokka heldur líta á einstaklinga og komast þannig hjá fordómum. Þetta segir Edwin Masback, 87 ára gömul hetja úr Seinni heimstyrjöldinni, sem starfaði við sjúkraflutninga á vegum AFS. AFS samtökin þekkja flestir Íslendingar sem alþjóðleg skiptinemasamtök. Færri vita að upphaf samtakanna má rekja til sjálfboðaliðahreyfingar sjúkraflutningamanna úr báðum heimstyrjöldunum. Fluttu mennirnir sjúka og særða hermenn af vígstöðvum að sjúkrahúsum, auk þess að aðstoða óbreytta borgara. Þegar Seinni heimstyrjöldinni lauk ákváðu sjálfboðaliðarnir að halda starfinu áfram og stuðla að stúdentaskiptum - fyrst háskólanema en síðar framhaldsskólanema - í ljósi þess að betra er talið fyrir þann aldurshóp að aðlagast fjölskyldum sem búið er hjá. Edwin Masback er heyrnarlaus á öðru og heyrir illa með hinu og fékk því ekki inngöngu í herinn; hann vildi samt láta gott af sér leiða í Seinni heimstyrjöldinni og gekk til liðs við AFS. Hann hefur starfað með samtökunum alla tíð og segir starfið hafa haft mikil áhrif á sitt líf. „Eftir stríðið, þegar þessi áætlun hófst, var ég beðinn um að hafa ofan af fyrir tveimur háskólastúdentum í New York,“ segir Masback. „Annar var Nýsjálendingur og hinn var Þjóðverji. Þegar við fórum að tala saman kom í ljós að við höfðum allir tekið þátt í orustunni um Casino. Nýsjálendingurinn var í nýsjálensku herdeildinni, Þjóðverjinn var í fallhlífahersveitum SS sem höfðu svarið Hitler persónulegan hollustueið, og svo var ég þarna með minn gyðinglega bakgrunn. Á vissan hátt var þetta eins og opinberun - að ég skyldi geta losað mig við alla reiði sem í mér bjó og tekið fólk eins og það var í stað þess að setja það á hugmyndafræðilegan bás sem óvíst er að það ætti heima á,“ segir Masback og segir þetta hafa verið þýðingarmikla reynslu fyrir sig. „Og ég er viss um að aðrir hafa upplifað það sama.“  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×