Innlent

Þrír bændur reisa virkjun

Þrír djarfhuga bændur á sunnanverðu Snæfellsnesi eru að reisa virkjun sem anna mun raforkuþörf þúsund heimila. Þeir sem aka nýju Vatnaleiðina yfir Snæfellsnesfjallgarðinn sjá framkvæmdirnar sem hófust í október í haust. Þeir kalla hana Múlavirkjun, bændurnir þrír, en verkið kostar hátt í 300 milljónir króna. Þarna starfa tíu manns þessa dagana að því að virkja Straumfjarðará, hina kunnu laxveiðiá, en þó langt ofan göngusvæðis laxins. Skammt neðan útfalls Baulárvallavatns er stífla að rísa í gljúfri árinnar. Þaðan verður pípa lögð niður í stöðvarhús neðan við fossana efst í dalnum en byrjað er að slá upp fyrir grunni stöðvarhússins. Þannig 85 næst metra fallhæð en afl virkjunarinnar verður 1,9 megavött, um tveir þriðju af afli Elliðarástöðvar.  Eggert Kjartansson, bóndi á Hofsstöðum, segir þetta alvöru virkjun. Hann kveðst vona að sjá meira um þetta víðar um landið - að bændur og fólk í sveitunum virki og skapi sér verðmæti úr því sem það hafi nú þegar. Orka Múlavirkjunar mun geta annað raforkuþörf um eitt þúsund heimila. Stefnt er að því að virkjunin verði gangsett í júní en bændurnir eru þegar búnir að selja raforkuna til Hitaveitu Suðurnesja til næstu tólf ára. Ný tegund bænda virðist því að verða til á Íslandi, raforkubændur, og víst er að þeim mun fjölga mjög á næstu árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×