Innlent

Landhelgisgæslan til Keflavíkur

Landhelgisgæslan mun flytja til Keflavíkur á næstu árum. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir að það liggi fyrir að Íslendingar taki að sér meiri verkefni í tengslum við Keflavíkurflugvöll og Varnarliðið. Þar nefndi ráðherra Landhelgisgæsluna og lögregluna en víkingasveitin verður efld og tólf manna sveit staðsett í Keflavík. Halldór ræddi málefni varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli á fundi í Keflavík í gærkvöldi og sagði að aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna væri væntanlegur til Íslands á næstu vikum til fundar við sig. Þar yrði rædd framtíð Keflavíkurstöðvarinnar og var hann bjartsýnn á að herþoturnar yrðu hér áfram. Alla vega væri það vilji Atlantshafsbandalagsins. Halldór sagði þó ljóst að Íslendingar yrðu að taka að sér frekari verkefni í tengslum við rekstur Keflavíkurflugvallar. Hann sagði að líklega kæmu þau einkum í hlut lögreglu og Landhelgisgæslunnar. Halldór sagði að ef Íslendingar þyrftu að taka yfir starfsemi þyrlureksturs sem verið hefur í höndum Varnarliðsins, þá gæti það hentað mjög vel að Landhelgisgæslan yrði staðsett á Keflavíkurflugvelli. Aðstæður væru allar hinar bestu á Suðurnesjum til að hýsa Gæsluna því fyrir utan flugvöllinn væru þar m.a. góðar hafnir. Fram kom hjá ráðherra að Íslendingar geta ekki stólað á aðeins eina þyrlu og þetta yrði mál sem kæmi án efa inn á borð stjórnvalda fljótlega. Halldór sagði einnig að lögreglan á Keflavíkurflugvelli yrði efld og til að mynda yrði tólf manna Víkingasveit staðsett í Keflavík.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×