Innlent

Hafísinn kominn að Melrakkasléttu

Hafís nálgast norðurströnd landsins óðfluga og hefur náð landi við Melrakkasléttu. Siglingaleiðir þar eru varasamar og gangi veðurspáin eftir, mun ástandið enn versna. Hafís hefur ekki verið meiri hér við land frá árinu 1979. Ísinn hefur náð landi á svæðinu í kringum Melrakkasléttu og vestan við Siglufjörð. Víða er ísinn aðeins tíu sjómílur frá landi eins og við Skagatá og í Grímsey og er hann kominn vel suður fyrir Langanes. Flugstjóri hjá Landhelgisgæslunni segir siglingaleiðir frá Bakkaflóa að Horni vera varasamar þar sem ís sé mikill á hafinu fyrir norðan Íslands. Þór Jakobsson veðurfræðingur segir mikinn ís utan við Grímsey. Hann segir norðanátt vera áfram spáð næstu næstu tvo sólarhringana og því hætta á að ísinn færist enn nær landi en nú er og ástandið því varhugavert. Þór segir mikilvægt að fylgjast vel með, sérstaklega á Ströndum, við Húnaflóa og vestur af Norðurlandi. Ekki er vitað hvort ísinn muni ná til Austfjarða þar sem áhyggjur hafa verið af fiskeldi. Óli Bjarni Ólason, sjómaður í Grímsey, segir ís allt í kringum eyjuna. Hann vonar að ísinn fari sem fyrst svo ekki verði mikil röskun á lífi í eynni. Þó segir hann lítið annað hægt að gera en að bíða þess að ísinn hverfi. Vararafstöð og olíubirgðir hafa verið fluttar til Grímseyjar auk þess sem ráðstafanir hafa verið gerðar til að verja báta og hafnarmannvirki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×