Erlent

Ógiftar konur greindari en giftar

Ógiftar konur eru greindari en þær giftu. Það er þó ekki hjónabandið eða samlífið við karlmenn sem dregur svona úr greindinni, heldur eru karlar hræddir við gáfaðar konur. Viðamikil rannsókn sem staðið hefur í 40 ár leiðir þetta í ljós. Nútímakonan er gjarnan sögð vera gáfuð, framagjörn og með góðar tekjur. Hún gæti hins vegar orðið fórnarlamb eigin velgengni í einkalífinu og átt erfiðara með að finna sér lífsförunaut en aðrar konur. Þetta má lesa út úr niðurstöðum rannsóknar vísindamanna við fjóra breska háskóla sem fyrir 40 árum mældu greind 900 ellefu ára barna. 40 árum síðar var svo kannað hvernig þessu fólki hafði reitt af í lífinu. Niðurstöðunum má lýsa svona: Hjá konum þýddi aukin greind minni líkur á hjónabandi og hjá körlum þýddi aukin greind meiri líkur á hjónabandi. Í ljós kom nefnilega að fyrir hver 16 stig sem bættust við greindarvísitölu stúlknanna dró úr líkum þeirra á hjónabandi um 40 prósent. Þessu var öfugt farið með mennina. Fyrir hver 16 stig sem bættust við þeirra greindarvísitölu, jukust líkur þeirra á hjónabandi um 35 prósent. Vísindamennirnir skýra þetta með því að karlmenn séu einfaldlega hræddir við vel gefnar konur sem vegni vel og að þeir vilji vera vissir um að stjórna í hjónabandinu. Önnur rannsókn Háskólans í Michigan í Bandaríkjunum styður þessar niðurstöður en þar eru vísbendingar um að karlar vilji giftast konum sem séu í lægri stöðum en þeir þar sem þeir telji að konur á framabraut séu líklegri en hinar til framhjáhalds.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×