Sport

Fisichella sigraði í Melbourne

Ítalinn Giancarlo Fisichella var maður helgarinnar í Formúlunni, en hann sigraði nokkuð örugglega í fyrstu keppni ársins í Melbourne í Ástralíu. Rubens Barrichello hjá Ferrari hafnaði í öðru sæti í keppninni, en félagi Fisichella hjá Renault, Fernando Alonso varð í þriðja sæti og því má segja að lið Renault hafi verið sigurvegarar helgarinnar. Liðið hafði verið að aka frábærlega á undirbúningstímabilinu og þeir sem spáðu því að Renault næði ekki að fylgja því eftir inn í tímabilið þurftu svo sannarlega að éta það ofan í sig eftir helgina. Nokkuð var um óhöpp í keppni helgarinnar og til að mynda þurfti heimsmeistarinn Michael Schumacher að sætta sig við að falla úr keppni eftir að hann lenti í árekstri við Nick Heidfeld hjá Williams. Athygli vakti að nýliðar Red Bull, með skotann David Coulthard fremstan í flokki, náðu frábærum árangri og höfnuðu í fjórða og sjöunda sæti. Giancarlo Fisichella var mjög ánægður með byrjun sína á mótinu; "Þetta var nokkuð auðvelt allan tímann og það er frábært að byrja nýtt keppnistímabil svona vel. Ég reyndi að spara bílinn og aka varlega og það heppnaðist ágætlega, þó ég þyrfti að gá að mér þegar Rubens Barrichello sótti aðeins að mér í lokin", sagði Fisichella, sem var á ráspól í keppninni eftir að hafa náð bestum tíma í tímatökum daginn áður. Pat Symonds, yfirmaður tæknimála hjá Renault var ánægður með sína menn eftir keppnina og sagði lið sitt verða ofarlega í baráttunni um meistaratitilinn í ár. "Þið eigið eftir að sjá meira af Fisichella - þetta verður ekki síðasti sigur hans í ár", sagði Symonds. Rubens Barrichello varaði menn við því að afskrifa Ferrari. "Við verðum í slagnum í ár og þegar nýji bíllinn kemur verðum við enn sterkari", sagði Brasilíumaðurinn, sem ók jafnt og yfirvegað í keppninni og hafnaði eins og áður sagði í öðru sæti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×