Sport

Mourinho sigurviss

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea segir að lið sitt sé komið með aðra höndina á meistaratitilinn á Englandi eftir öruggan sigur á Norwich um helgina, en liðið hefur átta stiga forskot í deildinni og á leik til góða á Manchester United og Arsenal. "Ég hef alltaf sagt að við myndum vinna deildina og fólk hefur sakað mig um að vera hrokafullan. Við erum hinsvegar komnir í mjög vænlega stöðu og ef við náum góðum úrslitum gegn West Brom í leiknum sem við eigum inni, held ég að við séum komnir ansi nálægt titlinum", sagði Portúgalinn, sem kveðst vilja tryggja deildarmeistaratitilinn á Stanford Bridge, heimavelli Chelsea. "Draumur okkar er að landa titlinum á heimavelli fyrir framan áhorfendur okkar, því þeir eiga það skilið. Ef við gætum tryggt okkur deildarmeistaratitilinn á heimavelli tveimur vikum fyrir lok mótsins, yrði það frábært. Við hinsvegar tökum því sem að höndum ber og þó það yrði ekki fyrr en í síðustu umferðinni, sættum við okkur alveg við það", sagði Mourinho. Chelsea etur kappi við Barcelona í Meistaradeildinni í vikunni og er þess leiks beðið með mikilli eftirvæntingu. Chelsea nægir 1-0 sigur til að komast áfram í keppninni, eftir að hafa gert mikilvægt mark á útivelli í fyrri leiknum ytra. Vonast er til að Arjen Robben verði orðinn leikfær fyrir Chelsea, en Mourinho segist enga áhættu taka með leikmanninn. "Ef hann verður tæpur fyrir Barcelona-leikinn, hvílum við hann fram að næsta deildarleik", sagði knattspyrnustjórinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×