Innlent

Tímabær viðurkenning

Í gær skrifuðu Bubbi Morthens, Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka og Þorgils Óttar Mathiesen forstjóri Sjóvá undir samning um kaup Sjóvá á Hugverkasjóði Bubba Morthens, fyrir tilstilli Íslandsbanka. Samningurinn felur í sér að tekjur af 530 hugverkum Bubba, sem þegar er búið að gefa út, mun renna í Hugverkasjóðinn í tiltekinn árafjölda. Á móti fær hann greiðslu upp á tugi milljóna. Bubbi Morthens sagði í samtali við Fréttablaðið að samningurinn hefði heilmikla þýðingu fyrir íslenskan tónlistariðnað. "Þetta er mikil viðurkenning og kannski löngu tímabær viðurkenning á því að íslenskir tónlistarmenn búa til pening hér innanlands." Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka segir að með þessu geti Bubbi leyst inn framtíðartekjur, en á móti komi greiðslur til bankans í tiltekinn árafjölda, eða þar til greiðslan sé uppgreidd. "Við teljum þetta örugga ávöxtun en viljum ekki gera listamanninn að féþúfu." Aðspurður hvort fyrir liggi svipaðir samningar við aðra listamenn segir Bjarni að framleiðni Bubba sem listamanns sé einstök, og safn hans sé stærra en annarra. Ekki sé borðliggjandi hvort gerðir verða samningar við fleiri listamenn. Eftir á að skipa stjórn hugverkasjóðsins sem mun meðal annars sjá um alla endurútgáfu á verkum Bubba.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×