Innlent

Blöndun og sekkjun hætt í Gufunesi

Öllum starfsmönnum Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi sem störfuðu við blöndun og sekkjun áburðar hefur verið sagt upp störfum. Blöndun og sekkjun áburðar hér á landi leggst af í vor og fer alfarið fram í Eistlandi undir eftirliti Áburðarverksmiðjunnar og eftir uppskriftum hennar. Þaðan verður áburðurinn fluttur hingað til lands. Sigurður Þór Sigurðsson framkvæmdastjóri segir að fyrir þessu séu bæði hagkvæmnisástæður og vandamál með hafnaraðstöðu í Gufunesi. Kominn sé tími á mikið viðhald á bryggjunni en eigandinn, sem er skipulagssjóður, hafi ekki áhuga á að sinna því. Fyrir um aldarfjórðungi störfuðu 250 manns við áburðarframleiðslu í Gufunesi. Nú eru þeir aðeins fimm þar sem það hefur færst í vöxt á undanförnum misserum að áburður sé blandaður og sekkjaður erlendis. Í vor leggst sú starfsemi alveg af þegar uppsagnirnar koma til framkvæmda. Áburðarverksmiðjan hefur sagt upp leigusamningi sínum og flytur frá Gufunesi í sumar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×