Erlent

Sótt að vígamönnum í Ramadi

Bandarískar og íraskar hersveitir streymdu inn í Ramadi, settu upp vegatálma, leituðu í bílum og lokuðu nokkrum borgarhlutum af í gær. Aðgerðirnar voru hluti af sókn þeirra gegn íröskum vígamönnum í borginni og nokkrum öðrum borgum og bæjum við Efrat-fljót. Íbúar í Hadithah sögðu að bandarískar herþotur hefðu varpað sprengjum á borgina en ekki var vitað til þess að nokkur hefði fallið. Á sama tíma og aðgerðirnar stóðu yfir við bakka Efrat-fljóts funduðu meðlimir Sameinaða íraska bandalagsins í Bagdad og reyndu að komast að niðurstöðu um hver skyldi verða næsti forsætisráðherra landsins. Flokkarnir sem standa að bandalaginu skipuðu 21 manns nefnd sem á að tilnefna tvo frambjóðendur til embættisins. Ibrahim al-Jaafari varaforseti og Ahmad Chalabi, fyrrum samstarfsmaður Bandaríkjanna, þóttu lengi líklegastir í embætti forsætisráðherra en málin flæktust í gær þegar spurðist út að Adel Abdul-Mahdi fjármálaráðherra kynni að gefa kost á sér í embættið en hann hafði áður dregið sig í hlé. Abdul-Mahdi tengist Íran sterkum böndum og er það sumum þyrnir í augum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×