Erlent

210 milljónir barna þræla

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna UNICEF telur að 210 milljónir barna víða um heim neyðist til að vinna fyrir sér við skelfilegar aðstæður. Námagröftur, vændi og hermennska eru meðal þeirra verkefna sem þau eru neydd til að inna af hendi. Flest fá greidd smánarlaun, ef nokkur. Í nýrri skýrslu UNICEF kemur fram að börn allt niður í fimm ára gömul þurfi að þræla við illan kost. Sums staðar eru þau beinlínis notuð sem heimilisþrælar en barnaþrælkun fyrirfinnst um allan heim. Í Asíu eru börn gjarnan látin vinna í efnaverksmiðjum, í Afríku í grjótnámum og í Suður-Ameríku í málmbræðslum. Í Norður-Ameríku eru börn talin ódýrt vinnuafl í landbúnaði og í Evrópu eru dæmi um börn í kynlífsþrældómi. 41 prósent barna í Afríku þarf að sjá sjálfum sér farborða. UNICEF segir að eina leiðin til að binda enda á þessa óhæfu sé að uppræta fátækt í heiminum. Því hvetja samtökin hinar ríkari þjóðir að láta enn meira fé af hendi rakna til þróunaraðstoðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×