Erlent

Heimurinn gleymi ekki fórnarlömbum

Það er mikilvægt að heimurinn gleymi ekki fórnarlömbum hamfaranna í Suðaustur-Asíu og aðstoði þau áfram við að koma lífi sínu á réttan kjöl, segja tveir fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna sem eru í heimsókn á flóðasvæðunum. George Bush eldri og Bill Clinton hafa verið í heimsókn á hamfarasvæðunum í Asíu. Þeir hafa ítrekað sýnt í heimsókninni hvað afleiðingar flóðbylgjunnar hafa mikil áhrif á þá. Þeir voru um helgina í heimsókn í Aceh-héraði í Indónesíu sem varð hvað verst úti. Þar heimsóttu þeir fórnarlömb flóðanna á heimili þeirra og viðurkenndu að þeir hefðu aldrei séð nokkuð þessu líkt. Bush eldri lagði mikla áherslu á að heimsbyggðin yrði að halda áfram að gefa fé til að aðstoða fórnarlömbin við að byggja upp líf sitt á ný. Hann hvatti fólk til þess að láta meira fé af hendi rakna. Bandaríkjamenn hefðu sýnt mikla gjafmildi en Bush taldi að unnt væri að gefa mun meira. Það væri þeim Clinton ljóst eftir dvöl í bæjum sem hefðu hreinlega lagst í rúst í flóðunum. Bill Clinton tók í sama streng. Hann sagði hann hefði sett hljóðan vegna þess að ef til vill hefði aðeins einn metri ráðið því hvort mæður, feður og börn hefðu lifað af eða látist. Hjálpa yrði íbúum á hamfarasvæðunum við uppbygginguna og láta koma upp viðvörunarkerfi til þess að draga úr áhrifum stórslysa á borð við hamfarirnar á annan dag jóla svo færri létust.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×