Erlent

Herteknum svæðum skilað

Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, fyrirskipaði í dag að landnemabyggðum gyðinga á Gaza-svæðinu og á fjórum stöðum á Vesturbakkanum yrði lokað. Það yrði í fyrsta sinn í sögu Ísraels sem hertekin svæði Palestínumanna yrðu yfirgefin. Þetta er eitt af stærstu deilumálum Palestínumanna og Ísraela. Á Gaza-svæðinu búa um átta þúsund gyðingar innan um eina og hálfa milljón Palestínumanna undir öflugri hervernd. Áætlanirnar eru ákaflega mikilvægar varðandi friðarhorfur á svæðinu. Var tillagan samþykkt með miklum meirihluta. Brotthvarfi gyðinga frá Gaza á að ljúka í haust en þetta er í fyrsta sinn í sögu Ísraelsríkis sem Ísraelar fara frá herteknum svæðum. Áætlanirnar eru ákaflega mikilvægar varðandi friðarhorfur, landnemabyggðirnar hafa verið þyrnir í augum Palestínumanna og ítrekað komið til átaka á svæðinu. Palestínumenn voru vongóðir en varfærnir í yfirlýsingum sínum eftir þetta. Saeb Erekat, ráðherra í ríkisstjórn Palestínu, sagðist vona til að Ísraelsstjórn hyrfi frá einhliða stefnu sinni og einræðistilburðum. Ríkisstjórn Ísraels fjallaði einnig um endanlega legu aðskilnaðarmúrsins á Vesturbakkanum. Nú er í auknum mæli litið á múrinn sem drög að landamærum milli Ísraels og framtíðarríkis Palestínu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×