Erlent

Líkur á samþykkt stjórnarskrár

Spánverjar greiddu í dag atkvæði um nýja stjórnarskrá Evrópusambandsins. Kosningaþátttaka var dræm en kannanir benda til að stjórnarskráin verði samþykkt. Nýja stjórnarskráin á að breyta og auðvelda ákvarðanatöku innan sambandsins eftir að tíu þjóðir bættust við í fyrra. Níu Evrópuríki, þar á meðal Bretland og Frakkland, ætla að halda þjóðaratkvæðagreiðslu, tvö eru óákveðin en aðrir ætla að láta þingið greiða atkvæði um málið. Öll 25 sambandslöndin verða að samþykkja hana til að hún taki gildi. Fastlega er reiknað með samþykki á Spáni en þátttakan er dræm og stjórnvöld segjast gera sig ánægð með að þriðjungur greiði atkvæði. Jose Luis Rodriguez Zapatero, forsætisráðherra Spánar, sagði í dag að atkvæðagreiðslan opnaði dyrnar að sterkari og samheldnari Evrópu með meiri hagsæld í framtíðinni. Hann hvetti því alla borgara til þess að taka þátt í henni Þrátt fyrir spár um slæma þátttöku vonast leiðtogar til að úrslitin verði skýr og þannig sterk skilaboð til annarra Evrópusambandslanda. Kannanir hafa sýnt að 90 prósent Spánverja vita lítið sem ekkert um stjórnarskrána sem telur 350 síður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×