Erlent

Stefnir í skattastríð í Danmörku

Skattastríð er í uppsiglingu innan nýju dönsku ríkisstjórnarinnar, sem kynnt var í gær. Stuðningsflokkur stjórnarflokkanna tveggja ætlar ekki að styðja þá í að hrinda í framkvæmd einu af fyrstu kosningaloforðunum. Formlegt nafn nýju stjórnarinnar er ríkisstjórn Anders Foghs Rasmussens 2. Stjórn Venstre, flokks Rasmussens, og Íhaldsflokksins hélt velli í þingkosningum á dögunum. Það gerði hún þrátt fyrir að Venstre missti fjögur þingsæti því Íhaldsflokkurinn bætti við sig þremur og stuðningsflokkur minnihlutastjórnarninar, Danski þjóðarflokkurinn, bætti við sig tveimur þingsætum. Danski þjóðarflokkurinn er ósáttur við að hafa ekki komið neinu inn í stjórnarsáttmálann. Það kristallast nú í einu af fyrstu deilumálunum eftir kosningar sem er nýtilkomið greiðslugjald í verslunum ef borgað er með danska debetkortinu Dankort. Stjórnarsáttmálin inniheldur loforð fjármálaráðherrans frá síðustu dögum kosningabaráttunnar um að verslunum verði bannað að leggja sem nemur íslenkum fimmkalli á hverja kortafærslu. Verslanir og bankar eru ósatt og Danski þjóðarflokkurinn segir þetta ekki neina lausn þar sem verslanir muni líklega velta fimmkallinum út í vöruverð. Innan stjórnarinnar sjálfrar stefnir svo í skattastríð eins og danskir fjölmiðlar orða það. Í stjórnarsáttmálanum segir að skattar hækki ekki, svokallað skattastopp, og að skattalækkanir verðir skoðaðar þegar „fjármálalegt svigrúm“ leyfi. Skattaráðherrann úr röðum Venstre skýrir þetta betur í viðtali við Jótlandspóstinn í morgun þar sem hann segir að endurskipulagning ríkiskassans komi fyrst og talar um fyrirliggjandi sameiningu sveitarfélaga sem verður stóra málið í sveitarstjórnarkosningum í haust. Tíminn er afstæður í pólitík og skattastríðið er skýrt þannig að Íhaldsflokkurinn vilji skattalækkanir fyrir næstu kosningar en orðalag stjórnarsáttmálans býður upp á að það geti dregist. Nokkrar manna- og skipulagsbreytingar urðu á ráðuneytum sem eru nú 19. Venstre er með tólf og Íhaldið sjö. Mesta athygli vekur sú breyting að Bertel Haarder, sem hefur staðið í ströngu í ráðuneyti innflytjendamála, flyst yfir í menntamálaráðuneytið þar sem hann sat í ráðherrastóli í stjórn Pouls Schlüters frá 1982 til 1993. Hann þykir fastur fyrir og segir stjórnarandstaðan að skrítið sé að maðurinn sem beri ábyrgð á mörgu sem farið hafi forgörðum í dönsku menntakerfi eigi nú að laga það. Meðal þess sem danska stjórnin ætlar sér er einmitt að bæta stöðu grunnskóla með því að fjölga tímum í dönsku og setja á skyldupróf í lestri, stærðfærði, náttúrufræði og ensku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×