Erlent

Snarpur skjálfti við Indónesíu

Yfirborð sjávar við Indónesíu hækkaði um fjóra metra þegar jarðskjálfti varð á hafsvæðinu þar í kring í morgun. Skjálftinn mældist 6,5 á Richter. Mikil hræðsla greip um sig í sjávarþorpum á Sulawesi í Austur-Indónesíu þegar skjálftinn reið yfir en enginn slasaðist og skemmdir virðast litlar sem engar. Skjálftinn varði í rúmar tvær mínútur. Fjöldi fólks flúði heimili sín af ótta og hélt inn til landsins og markaðir við ströndina tæmdust. Flóðbylgjan á annan jóladag náði ekki til Sulawesi en skjálftinn sem olli þeirri bylgju var margfalt stærri, eða níu á Richter. Jarðskjálftar eru nokkuð tíðir á svæðinu, síðast varð einn í janúar sem mældist 6,2 á Richter. Tveir fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna heimsóttu hamfarasvæðin í Suðaustur-Asíu í dag. Bill Clinton og George Bush eldri táruðust næstum þegar þeir ræddu við fréttamenn um taílensk börn sem misstu foreldra sína í flóðunum. George Bush valdi þá til að stýra fjáröflun til hjálpar fórnarlömbum hamfaranna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×