Innlent

Stefnir í kollsteypu efnahagslífs

Staða gengisins um þessar mundir er svipuð og hún var árið 1999 segir Guðmundur Ólafsson hagfræðingur. Síðan þá hafi gengi dollarans hækkað, hæst í rúmar 107 krónur í nóvember 2001, en svo lækkað aftur. Sveifla pundsins hafi verið helmingi minni. Gengi evrunnar hafi hins vegar sveiflast lítið. "Gengi þeirra gjaldmiðla sem við seljum í er í lagi, en gengi dollara, sem útgerðin skuldar í, lækkar. Þetta er því óskastaða fyrir útgerðina," segir Guðmundur en bætir því við að olíuverð hafi hækkað mikið auk þess sem laun hafi hækkað töluvert. Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur LÍÚ, andmælir þessu og bendir á að hluti bæði tekna og skulda sjávarútvegsfyrirtækja sé í dollurum, en flestar skuldir séu í einhverjum myntkörfum. Hann bendir jafnframt á að í stað þess að gengisvísitalan sé í kringum 130, sem sé eðlilegt viðmiðunargengi, sé vísitalan nú 111. Það þýði að tekjumöguleikar greinarinnar hafi lækkað um 15 prósent og að gengið sé orðið mun hærra en útflutningsgreinar ráða við. Miðað við fimm ára meðaltal þurfi gengi pundsins að hækka um 10 prósent, en stór hluti sjávarafurða er fluttur til Bretlands. Gengisþróunin sé því að lækka tekjur og rýra kjör greinarinnar og afkomu hennar. "Það sem skiptir máli er ofhitnun hagkerfisins," segir Sveinn og bætir því við að að til að bregðast við og kæla hitastigið niður þurfi ríki og sveitarfélög að draga úr framkvæmdum, en þar á bæ sé engin viðleitni til aðhalds. Í því samhengi bendir hann á að launaþróun hjá hinu opinbera sé umfram aðra auk þess sem verð á húsnæði spenni upp verðbólgu og þenslu. Því sé mikilvægt að spyrna við fótum og leiðrétta gengið, svo ekki gangi yfir holskeflur sem við ráðum lítt við. "Við þolum það ekki mjög lengi að vera með einn sterkasta gjaldmiðil í heimi."
Guðmundur Ólafsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×