Erlent

Mesta árás frá styrjaldarlokum

Gríðaröflug sprengja kostaði þrettán lífið í Líbanon í dag, en þetta er mannskæðasta árás þar síðan að borgarastyrjöldinni lauk. Íslamskur öfgahópur lýsti tilræðinu á hendur sér. Öflug sprenging varð á fjölförnum stað í Beirút um hádegisbil. Fljótlega bárust fregnir þess efnis að þrettán hefðu farist og að hátt í hundrað hefðu særst. Nokkur stund leið þó áður en ljóst var hvers eðlis sprengingin var. Bassam Yamout, líbanskur þingmaður, sagði í viðtali við fjölmiðla skömmu eftir atburðinn að sprengingin hefði orðið í sömu mund og bifreið Rafiks Hariris, fyrrverandi forsætisráðherra, hefði verið ekið hjá. Í ljós kom að öflug bílsprengja sprakk þegar bílalest forsætisráðherrans fyrrverandi ók fram hjá og ljóst er hann var ráðinn af dögum. Fleiri fyrrverandi ráðherrar eru meðal særðra. Hariri var forsætisráðherra Líbanons í tólf ár og honum er þökkuð sú uppbygging sem þar hefur átt sér stað. Sjálfur var hann vellauðugur verktaki áður en hann fór út í stjórnmál. Hann sagði af sér embætti í október síðastliðnum vegna deilna við forseta landsins, sem nýtur stuðnings Sýrlendinga. Hariri kvatti nýlega til þess að sýrlenskar hersveitir í Líbanon hyrfu á braut. Íslamskur öfgahópur gekkst síðdegis við tilræðinu og sagði ástæðuna tengsl Hariri við Sádi-Arabíu. Hariri öðlaðist auðæfi sín sem verktaki þar í landi. Hópurinn er óþekktur. Þetta er mannskæðasta árás í Líbanon síðan að borgarastyrjöldinni þar lauk árið 1990 og hún varpar skugga á friðsamlega uppbyggingu sem þar hefur farið fram. Á meðan reynt hefur verið að endurvekja Beirút sem París Miðausturlanda og blása lífi í ferðaþjónustu hefur spenna kraumað undir niðri, ekki síst á milli kristinna manna og múslíma. Hætt er við að myndir á borð við þá sem er hér fyrir ofan verði síst til að lokka ferðamenn til landsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×