Innlent

Vísað úr landi vegna aldurs

Jórdaninn Said Hasan uppfyllti ekki skilyrði til að fá dvalarleyfi hér á landi, að sögn Hildar Dungal, setts forstjóra Útlendingastofnunar. Ásthildur Albertsdóttir, eiginkona Said Hasan, hefur gagnrýnt stjórnvöld fyrir að vísa honum úr landi. Maðurinn á að auki barn hér á landi. Umsókn Hasan um dvalarleyfi var synjað þar sem hann er 23 ára en samkvæmt lögum er útlendingum utan EES yngri en 24 ára bannað að ganga í hjónaband hér á landi. Þegar lögin voru samþykkt í fyrra var þessi regla höfð með vegna hættu á nauðungarhjónaböndum, sem eru þegar foreldrar þvinga börn sín í hjúskap, og málamyndarhjónaböndum, sem stofnuð eru eingöngu í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis. Hildur Dungal segir að Hasan hafi dvalið hér ólöglega þangað til hann honum var synjað um dvalarleyfi. "Hann sótti ekki um fyrr en að áritun var að renna út og þegar umsókninni var synjað var honum veitt tækifæri til að yfirgefa landið. Hann gerði það ekki og því var honum vísað úr landi." Vegna þess fær maðurinn ekki að koma aftur til landsins fyrr en að þremur árum liðnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×