Innlent

Trassa að tilkynna aukaverkanir

Íslenskir læknar sinna tilkynningaskyldu sinni varðandi aukaverkanir lyfja ekki sem skyldi, að sögn Rannveigar Gunnarsdóttur forstjóra Lyfjastofnunar. Aðeins þrjár tilkynningar um aukaverkanir gigtarlyfsins Vioxx bárust stofnuninni á árabilinu 2000 - 2004, eða á þeim tíma sem lyfið var á markaði hér, þar af tvær alvarlegar. Rannveig sagði, að Lyfjastofnun hefðu ekki borist neinar tilkynningar um dauðsföll tengda notkun þessara lyfja hér á Íslandi. Hún sagði enn fremur, að auk þessa hefðu aðstandendur tveggja sjúklinga haft samband við Lyfjastofnun vegna gruns um að sjúklingarnir hefðu skaðast alvarlega af notkun lyfsins, annar þeirra jafnvel látist af völdum þess, en það væru einungis vangaveltur eftir að umræðan hefði hafist um aukaverkanir þess. Mikil umræða hefur orðið erlendis um aukaverkanir gigtarlyfsins Vioxx, sem tekið var af markaði eftir að þrjár klínískar rannsóknir höfðu sýnt að hætta væri á hættulegum aukaverkunum af notkun þess, þar á meðal hjartaslagi og heilablóðfalli. Sérfæðingar, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu telja, að fjöldi sjúklinga hafi fengið hjartasjúkdóma eða jafnvel látist af völdum þessara aukaverkana. Ljóst er af tölum frá Tryggingastofnun, að notkun lyfsins hefur verið mikil hér á landi á þeim tíma sem það var leyft. "Það skortir á að íslenskt heilbrigðisstarfsfólk sinni þessari tilkynningaskyldu sinni," sagði Rannveig. "Sumir læknar hringja jafnvel í okkur og velta því fyrir sér hvort um aukaverkanir geti verið að ræða í ákveðnum tilvikum. Þeir eru þá hvattir til að senda tilkynningu, en hún kemur alltof sjaldan." "Vegna þessarar umræðu vil ég benda á að lyfjastofnanir á Evrópska efnahagssvæðinu hafa náið samstarf," sagði Rannveig. "Starfandi er vinnuhópur, lyfjagátarnefnd, á vegum Lyfjastofnunar Evrópu. Hann safnar saman upplýsingum um aukaverkanir lyfja frá öllum löndum og ákveður hvort skoða þurfi einhver þeirra nánar. Nú er til dæmis COX 2 hemla lyfjaflokkurinn í sérstakri skoðun ."


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×