Innlent

Fornleifafundur án fordæmis

Hvers vegna var tvítug stúlka að flækjast uppi á heiði um árið 920 - með fimm hundruð dýrmætar perlur í fórum sínum? Þessu reyna fornleifafræðingar að komast að. Jarðneskar leifar stúlkunnar eru nú á Þjóðminjasafninu, ásamt perlunum, en fundur þeirra er algjört einsdæmi. Í sumar fundust jarðneskar leifar ungrar konu og fjöldi skartgripa í stórgrýtisurð norður af Vestdalsheiði og kom fundurinn mjög á óvart. Nú liggja fyrir niðurstöður rannsókna á leifunum en þær eru að konan lést milli áranna 920 og 930. Út frá tönnum sést að hún hefur verið rétt rúmlega tvítug. Hjá henni fannst gríðarlega mikið af skartgripum, meðal annars fimm hundruð stykki af perlum. Sigurður Bergsteinsson fornleifafræðingur segir algjört einsdæmi á Norðurlöndunum að leifar konu frá víkingaöld finnist ásamt svona mörgum perlum. Perlurnar koma víðsvegar að og þannig er hægt að fræðast um verslunarleiðir þessa tíma. Meðal annars eru sumar perlurnar frá Indlandi. Konan, sem nefnd er Fjallkonan, hefur verið meðal fyrstu íbúa landsins. Hún hefur líklega leitað sér skjóls í gjótunni, langt utan alfararleiðar, og orðið úti. Sigurður telur að varla hafi konan verið ein á ferð og því gætu hugsanlega fundist jarðneskar leifar fleiri manna á svæðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×