Innlent

Stjórnin grípur til aðgerða

Vinnumálastofnun gaf í dag út 61 atvinnuleyfi, meðal annars til 24 Kínverja. Ríkisstjórnin ætlar að grípa til aðgerða vegna erlendra starfsmanna á vinnumarkaði í kjölfar greinargerðar ASÍ um ítalska verktakafyrirtækið Impreglio. Árni Magnússon félagsmálaráðherra kynnti forystu ASÍ og SA aðgerðirnar í dag sem meðal annars kveða á um að atvinnuleyfi verða ekki gefin út nema heilbrigðisvottorð starfsmanna liggi fyrir. Einnig verður hnykkt á ákveðnum atriðum varðandi starfsréttindi og, síðast en ekki síst, hefja undirbúning að því að atvinnu- og dvalarleyfi verði hjá einu ráðuneyti en ekki tveimur eins og nú er, þ.e. félagsmála- og dómsmálaráðuneyti. Auk þessa var rætt á ríkisstjórnarfundi að efla löggæslu á Kárahnjúkum en þar með hefur ríkisstjórnin lokið afskiptum sínum í bili, þótt áfram verði fylgst með málinu. Vinnumálastofnun gaf út tilkynningu í dag um að veitt yrðu 61 atvinnuleyfi, þar af 24 til Impregilo vegna Kínverja sem hafa beðið afgreiðslu í nokkurn tíma. Árni segir málið samt verða áfram til umfjöllunar því það sé af þeirri tegund og stærðargráðu að umræðunni um það lýkur kannski aldrei. Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, segir að best sé að segja sem minnst. Alþýðusambandið muni fara vel yfir málið og lýsa skoðun sinni innan tveggja sólarhringa. Hann segir þó að verið sé að svara sumu efnislega með jákvæðum hætti, annað liggi kyrrt. Málið sé því hvergi nærri lokið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×