Innlent

Hundruð flytja á laugaveginn

Byggingarfyrirtækið Stafna á milli hefur keypt allar húseignir frá og með Laugavegi 41, niður Frakkastíg og til og með Hverfisgötu 58. Fyrirtækið ÁF-hús hefur fest kaup á eignunum að Laugavegi 33a og 35 auk Vatnsstígs 4. Bæði fyrirtækin hyggjast byggja að nýju á lóðunum eftir deiliskipulagi. Verslanir og fjöldi íbúða verða í húsunum. Engilbert Runólfsson, eigandi Stafna á milli, segir hönnun svæðisins ekki lokið en eins og greint hefur verið frá á að reisa fimmtán þúsund fermetra hús á reitnum. Sex þúsund fermetra bílageymsla verður undir byggingunni. Ágúst Friðgeirsson, eigandi ÁF-húsa ehf., segir hönnun nýju húsanna á byrjunarstigi. Stefnt sé að því að rífa þau sem fyrir séu og byggja ný fjögurra hæða. Ágúst segir það í skoðun að kaupa fleiri hús á svæðinu en enn sé óljóst hvað verði. "Þessi hús eru í það minnsta komin komin í hendi og duga mér í bili." Sigurður G. Steinþórsson, gullsmíðameistari og annar eigandi Gulls og silfurs, seldi ÁF-húsum Laugaveg 35. Fyrirtæki hans flytur ofar á Laugaveginn. "Ég er búinn að vera hér í 34 ár og það er dálítið átak að selja staðinn sem maður er nánast búinn að búa á," segir Sigurður. Það hafi hann gert til að stuðla að uppbyggingunni: "Það er fullt af fyrirtækjum sem vilja koma hingað á Laugaveginn en þau vilja ekki vera í þessum gömlu húsum. Með nýjum húsum fáum við öll bestu fyrirtækin á svæðið." Sigurður segir ásókn í húseignir þegar hafa aukist og fólk hafi öðlast endurnýjaða trú á hinn eina sanna Laugaveg sem miðpunkt borgarinnar. Þar muni þúsundir búa og hundruð flytjast í nýju íbúðirnar. "Nú verður fólk í miðbænum. Hér verður ekki bara draugaborg eftir miðnætti heldur líf og fjör með veitingastöðum, verslunum og fólki," segir Sigurður. "Þetta er frábær þróun."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×