Innlent

Vatnajökulsþjóðgarður undirbúinn

Ríkisstjórnin samþykkti í gær að hafinn yrði undirbúningur Vatnajökulsþjóðgarðs. Stefnt er að hann nái yfir 10.600 ferkílómetra. Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra segir undirbúningsvinnu hefjast strax. Hún geti tekið nokkurn tíma. Ef til vill verði þjóðgarðurinn opnaður í áföngum. Umhverfisráðuneytið ætli að vinna með heimamönnum þeirra sjö sveitarfélaga sem hann nái til og annarra sem hlut eigi að máli. Sigríður segir ákvörðun ríkisstjórnarinnar hafa átt sér langan aðdraganda. Nefnd fulltrúa frá stjórnmálaflokkunum hafi skilað áliti í maí. Á grundvelli tilagna hennar verði unnið áfram að málinu. Í áliti nefndarinnar segir að Vatnajökulsþjóðgarður verði einstakur í heiminum þegar horft sé til stærðar og fjölbreytileika. Hann verði aufúsugestur á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna um athyglisverða staði í heiminum og með þeim markverðustu á sviði jarðfærði og landmótunar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×