Innlent

Haförninn á batavegi

Ungur haförn sem verið hefur í gjörgæslu Húsdýragarðsins er óðum að fá bata en hann fór úr lið eftir að hafa flogið á rafmagnslínu í Þingvallasveit. Assan er hin glæsilegasta. Örninn er meðal sjaldgæfustu varpfugla landsins en talið er að hér séu 57 fullorðin pör, auk ungfugla. Það er því afar fátítt að menn sjái haförn. Assan í  Húsdýragarðinum er fimm ára gömul, hún er ekki orðin kynþroska en stór er hún; 6,7 kíló og vænghafið tveir metrar og tuttugu sentímetrar. Hún fannst neðan við rafmagnslínu í Grafningi og gat þá ekki flogið en talið er að hún hafi náðst fljótlega eftir óhappið. Við skoðun kom í ljós að annar vængurinn hafði farið úr lið og liðbönd höfðu trosnað. Vængnum var kippt í liðinn og hann svo bundinn upp til að hefta hreyfingu. Nú má segja að hún sé í sjúkraþjálfun í Húsdýragarðinum. Hún er farin að fljúga um en slasaði vængurinn sígur niður eftir stutta stund. Það er því ekki talið óhætt að sleppa henni; hún gæti að líkindum ekki veitt en vonlaust yrði að ná henni aftur. Ernir para sig til lífstíðar, sem er vel á fertugsaldurinn, og kynþroski þessa glæsilega kvenfugls er á næsta leiti. Það er því von að hún muni ekki láta sitt eftir liggja við að fjölga í arnarstofninum á Íslandi. Ekki er vanþörf á.
MYND/Vísir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×