Innlent

Andlátið rakið til vanrækslu

Maður á níræðisaldri, sem lést á vistheimilinu Hrafnistu eftir höfuðhögg á síðasta ári, fékk ekki þá meðferð og umönnun sem ætlast er af heilbrigðisstarfsfólki. Þetta kemur fram í álit Landlæknis. Maðurinn, sem var 85 ára gamall, lést í nóvember á síðasta ári. Níu klukkutímar liðu frá þvi maðurinn féll í gólfið í borðsal Hrafnistu þar til hann var fluttur á sjúkrahús. Þar kom í ljós að hann var höfuðkúpubrotinn. Blætt hafði inn á heila hans og hann var orðinn lamaður í helmingi líkamans. Sex dögum síðar lést maðurinn, án þess að koma til meðvitundar. Lækninga- og hjúkrunarforstjórar Hrafnistu hafa sagt mistök hafa átt sér stað bæði við ákvarðanatöku og í vinnulagi starfsfólks og því er Landlæknir sammála. Embættið telur að maðurinn hafi ekki fengið þá meðferð sem ætlast mátti til af starfsfólki Hrafnistu og ýmsar athugasemdir eru gerðar við það hvernig staðið var að verki. Ekki var farið að reglum, eftirlit með manninum var ónægjanlegt, skrásetning ófullnægjandi og gerðar er athugasemdir við að aðstandendur mannsins hafi ekki verið látnir vita af aðstæðum hans. Landlæknir telur hins vegar ekki að það hefði bjargað lífi gamla mannsins þótt hann hefði verið fluttur á heilaskurðdeild eins og rétt hefði verið að gera. Aðstendendur hins látna geta notað álit Landlæknis ef þeir hyggjast höfða mál á hendur stofnuninni en lát mannsins er einnig í lögreglurannsókn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×