Innlent

Vilja selja refaveiðileyfi

Hugmyndir eru um það í Skagafirði að selja skotveiðimönnum leyfi til refaveiða í sveitinni. Jón Garðarsson, fulltrúi Framsóknarflokks í atvinnu- og ferðamálanefnd Skagafjarðar, kynnti þessar hugmyndir á fundi nefndarinnar í liðinni viku. Jón segir að hugmyndinni sé ætlað að snúa útgjaldaaukningu sveitarfélagsins vegna minka- og refaveiða í tekjuöflun fyrir ferðaþjónustu með svipuðum hætti og gert sé með hreindýraveiðum og laxveiðum. Samkvæmt hugmyndum Jóns myndu veiðarnar fara fram undir eftirliti leiðsögumanna. "Þetta myndi efla ferðaiðnaðinn á svæðinu," segir Jón. "Þetta yrðu góðar pakkaferðir með veiði, gistingu og mat. Ég tel að tekjur af þessu gætu orðið hundrað milljónir króna á landinu öllu. Eftirspurnin er mikil að mínu mati, bæði frá útlendingum og veiðimönnum hér heima sem hafa ekki rjúpuna til að veiða." Jón segir nauðsynlegt að refaveiði leggist ekki niður því það gæti haft slæm áhrif á viðgang mófugla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×