Innlent

Kostaboð verslana standast ekki

Svo virðist sem auglýst kostaboð raftækjaverslana eigi ekki ávallt við rök að styðjast. Í auglýsingabæklingi ELKO, sem datt inn á borð landsmanna í byrjun árs, má finna verðupplýsingar sem hreinlega standast ekki. Í auglýsingabæklingnum er myndavél til dæmis sögð hafa lækkað úr 44.900 krónum í 34.900 eða um 10 þúsund krónur. Kostaboð, en vélin var þó aðeins fimm þúsund krónum dýrari í versluninni daginn fyrir útsöluna, ekki 10 þúsund krónum. Tölva er sögð vera seld með 20 þúsund króna afslætti. Hún er þó aðeins með 10 þúsund króna afslátt miðað við söluverð degi fyrir útsölu. DVD-spilari er sagður hafa kostað tæpar 45 þúsund krónur og vera með 10 þúsund króna afslátt. Miðað við áður auglýst verð hefur hann þó einungis lækkað um 2000 krónur. Svipuð dæmi má taka af síma, linsu og prentara.  Gestur Hjaltason, framkvæmdastjóri ELKO, segir að rekja megi þetta undarlega ról á upprunalegu verði verslunarinnar til ónákvæmni í vinnubrögðum starfsmanna. Þrjár af sex vörutegundum hafi til dæmis verið lækkaðar í þrepum og miðað hafi verið við hæsta verð fyrir mistök. Hann neitar því að verið sé að blekkja fólk vísvitandi; það kæmust þeir aldrei upp með. Gestur segir fráleitt að starfsmenn ELKO séu einir um að gera slík mistök og segist geta bent á tugi dæma hjá keppinautunum. Þá segir hann sumar raftækjaverslanir miða útsöluverð til dæmis við „fullt verð“, án þess að tiltaka hvað í því felist. Svo má ekki gleyma tilboðsverðinu sem verið hefur í boði í ár og vaxtalausu afborganirnar. Einfaldast er kannski að kanna hvort fjárhagurinn leyfi að greiða það sem upp er sett og setja þannig sitt eigið viðmið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×