Innlent

Örorka hækkar um 14 milljarða

Í fyrsta sinn liggur fyrir örorkulíkan sem byggist á íslenskum raunveruleika. Hingað til hefur verið stuðst við danskt líkan. Samkvæmt íslensku útreikningunum hækka skuldbindingar lífeyrissjóðs VR vegna örorku um tæpa fjórtán milljarða. Mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði hækkaði samkvæmt kjarasamningum úr sex prósentum í sjö nú um áramótin. Þrátt fyrir það hækka lífeyrisréttindi sjóðsfélaga ekki því hækkunin á einungis að standa undir auknum skuldbindingum lífeyrissjóðanna vegna þess að landsmenn ná nú hærri aldri en áður. Þannig aukast skuldbindingar lífeyrissjóðs VR um 8,3 milljarða samkvæmt nýjum útreikningum á dánarlíkum. Það samsvarar 3,6 prósenta hækkun á ellilífeyrisskuldbindingum. Við þetta bætist að í fyrsta sinn liggja fyrir örorkulíkur sem byggja á íslenskri reynslu. Samkvæmt þeim hækka örorkuskuldbindingar lífeyrissjóðs VR um 13,9 milljarða sem er hækkun um heil 43 prósent. Samanlögð áhrif þessara þátta þýða liðlega sjö prósenta aukningu á skuldbindingum. Sjóðurinn hefur því gripið til þess ráðs að lækka áunnin réttindi sjóðsfélaga um 2,7 prósent þar sem fyrrgreind hækkun á mótframlagi atvinnurekenda stendur ekki undir nýjum örorkulíkum og auknum aldri sjóðsfélaga. Ekki er enn ljóst hver áhrifin verða á aðra lífeyrissjóði en verið er að vinna í þeim útreikningum og í kjölfarið verða niðurstöðurnar kynntar sjóðsfélögum. Hvernig aðrir lífeyrissjóðir koma til móts við auknar elli- og örorkuskuldbindingar er því enn óljóst en þar sem félagar í lífeyrissjóði VR eru ekki í þeim starfsstéttum þar sem líkur á varanlegri örorku eru mestar, verður að teljast mjög líklegt að örorkuskuldbindingar sumra þeirra hækki meira en hjá lífeyrissjóði VR.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×