Innlent

Húsaleiga hefur margfaldast

Hátt í 100 íbúðir eru í byggingu eða í farvatninu á Egilsstöðum, þar af er 21 íbúðar blokk risin og hefur verið flutt inn í tæpan helming íbúðanna. Verið er að byggja 23 íbúða blokk til viðbótar auk einbýlishúsa á vegum Malarvinnslunnar. Afgangurinn er á vegum annarra fyrirtækja. Sigurþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Malarvinnslunnar, segir að Íbúðalánasjóður hafi veitt lán á sérkjörum til þeirra sem hafi viljað byggja leiguíbúðir og þá hafi margir farið af stað. Malarvinnslan hafi verið með lóð undir blokk og því hafið framkvæmdir. Fyrsta íbúðin hafi verið afhent í haust og nú hafi verið flutt inn í tæpan helming íbúðanna, hinar séu tilbúnar en óseldar. "Maður hefði ímyndað sér að fleiri íbúðir myndu seljast en ég trúi því að það gerist með hækkandi sól," segir hann. Fyrirhuguð er bygging verslunar- og þjónustuhúsnæðis á Egilsstöðum þó að ekki sé búið að fastsetja hvenær framkvæmdir hefjast. Til viðbótar mun rísa tveggja hæða verslunarhúsnæði, 250 fermetrar að grunnfleti. Tískuverslunin Sentrum verður þar á götuhæðinni og skrifstofur á efri hæðinni. Systurnar Þuríður og Margrét Halldórsdætur reka tískuverslunina Sentrum í Miðvangi. Þær segja að rekstur verslunarinnar hafi gengið þar til húsaleiga hafi hækkað og margfaldast. Þær hafi því ákveðið að spila djarft og byggja nýtt tveggja hæða verslunarhúsnæði skammt frá Samkaupum. Framkvæmdir eru hafnar og stefna þær að því að opna í nýju húsnæði á þessu ári. "Við teljum það vænlegri kost en að leigja á markaðinum. Reksturinn hefur rétt náð að fljóta en nú er enginn grundvöllur fyrir því að leigja. Húsaleigan stendur litlum fyrirtækjum hér fyrir þrifum og margir hafa hætt, meðal annars út af húsnæðisskorti. Markaðurinn er enn ekki orðinn nógu stór til að sérverslun gangi hér," segja þær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×