Innlent

Uppgröftur á fornminjum Hrafnkels

Landsvirkjun hefur óskað eftir tilboði í að grafa upp rústir sem taldar eru vera af seli Hrafnkels Freysgoða, sem uppi var á tíundu öld, en munu fara á kaf í Kárahnjúkalóni. Þetta eru tvær rústir sem hvor um sig er u.þ.b. 18 x 8 metrar að flatarmáli og eru á svonefndum Hálsi við Jökulsá á Brú, sunnan við Kárahnjúka. Verkið felur í sér rannsókn með uppgreftri á rústunum, forvörslu gripa sem kunna að finnast í þeim, greiningu sýna og skýrslu um rannsóknina. Gert er ráð fyrir að vettvangsrannsókn hefjist í sumar og ljúki í haust en verkefninu verði að fullu lokið haustið 2006. Þegar farið verður að safna vatni í lón Kárahnjúkavirkjunar fara rústirnar í kaf en reynist þetta rústir af seli Hrafnkels eru þetta einhverjar elstu leifar mannvirkja hérlendis. Í Hrafnkelssögu segir að á þessum slóðum hafi hann haldið kvíaær og þar hafi heitið að Reykjaseli. Smalinn sem tók Freyfaxa, öndvegisgæðing Hrafnkels, ófrjálsri hendi til að leita að tíndum kindum kom þar meðal annars við, skömmu áður en hann galt með lífi sínu fyrir heststuldinn.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×