Innlent

Próftaka í héraði

Lífleg starfsemi hefur verið í Þekkingarsetrinu á Húsavík að undanförnu að sögn Óla Halldórssonar, forstöðumanns setursins. Tugir nemenda frá Húsavík, sem stunda nám við Háskólann á Akureyri, nota setrið reglulega til náms og margir hafa tekið þar fjarpróf. „Fjöldi nemenda sem stundar nám á háskólastigi við íslenska skóla þreytti hér fjarpróf í desember og janúar auk eins nemanda sem stundar nám í arkitektúr við spænskan háskóla," sagði Óli. Arkitektaneminn heitir Agnes Ýr Guðmundsdóttir og stundar nám við Universitat Politécnica de Catalunya í Barcelóna. „Kennarar hennar töluðu litla ensku og því fóru tölvusamskipti okkar við þá að miklu leyti fram á spænsku og katalónsku og því er ekki að neita að á köflum voru samskiptin brosleg. Allt gekk þó vel að lokum," sagði Óli. Þekkingarsetrið er í 300 fermetra húsnæði og að sögn Óla er þar góð aðstaða til náms og próftöku, auk þess sem þar er lítil rannsóknastofa fyrir líffræðirannsóknir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×