Innlent

Skriður gætu valdið flóðbylgju

Skriður af völdum eldgosa í Atlantshafi geta komið af stað hárri flóðbylgju sem næði alla leið til Íslands, segir Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur. Hættur á hafsbotni og afleiðingar hamfaranna á Indlandshafi verða til umfjöllunar á málþingi jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands í vikunni. Málþingið verður haldið í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands, á miðvikudag, en þá verður nákvæmlega mánuður liðinn frá því að flóðbylgja af völdum jarðskjálfta við Súmötru reið yfir lönd við Indlandshaf með skelfilegum afleiðingum. Hamfarirnar hafa beint sjónum vísindamanna að sams konar hættum annars staðar í heiminum, til dæmis í Atlantshafi. Flest flóð við Ísland verða vegna veðurs. Þótt ekki sé talið yfirvofandi að jarðskjálftar, eldgos og skriður geti valdið risaflóðbylgju við Íslandsstrendur segir Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur að slíkt geti þó gerst á nokkur þúsund ára fresti. Í Atlantshafi séu óstöðugar eldfjallaeyjar og til viðbótar við Ísland sé eldfjall á Jan Mayen. Mestu hættusvæðin séu hins vegar Kanaríeyjar, Azor-eyjar og Grænhöfðaeyjar og á öllum þessum stöðum séu óstöðug eldfjöll. Aðspurður hvaða afleiðingar gætu fylgt því ef það hryndi úr eldfjalli í kjölfar eldgoss segir Freysteinn að í versta tilfelli gætu myndast bylgjur sem færu yfir Atlantshafið og næðu ströndum Ameríku og Íslands með nokkurra metra hæð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×