Innlent

Segir samruna draga úr samkeppni

Tvö af minnstu tryggingafélögum landsins hafa sameinast og eru nú að meirihluta komin í eigu VÍS, sem er eitt af stóru tryggingafélögunum. Formaður Neytendasamtakanna segir þetta draga úr samkeppni og hækka verðið til neytenda. Íslandstrygging og Vörður - vátryggingafélag náðu samkomulagi í vikunni um að sameinast. Í nóvember síðastliðnum keypti VÍS Vörð, sem var að mestu í eigu Baugs. Eftir sameininguna við Íslandstryggingu á VÍS 58% í hinu sameinaða félagi. VÍS er einn þriggja risa á tryggingamarkaði sem hefur sætt rannsókn samkeppnisyfirvalda vegna samráðs. Íslandstrygging og Vörður voru og eru hins vegar lítil tryggingafyrirtæki sem ætluðu sér að etja kappi við risana og efla samkeppni. Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, er uggandi vegna yfirtöku VÍS á litlu félögunum. Hann segir að draga muni úr samkeppni og ef það dragi úr samkeppni á tryggingamarkaði, þar sem takmörkuð samkeppni hafi verið fyrir, verði þróunin eins og hún hafi alltaf verið, að verð hækki. Fyrir ári var Baugur í fararbroddi þeirra sem komu með fjármagn inn í Vörð og boðaði aukna samkeppni á tryggingamarkaði almenningi til hagsbóta. Þá sagði Jóhannes Jónsson, kenndur við Bónus, í samtali við Ríkissjónvarpið: „Ég heiti þeim allavegana aukinni samkeppni," og í fréttum Stöðvar tvö sagði Jóhannes aðspurður hvort fyrirtækið myndi bjóða lægstu tryggingarnar á markaði: „Því get ég ekki lofað en ég get allavegana lofað því að tryggingar í landinu munu lækka." Jóhannes Gunnarsson segist ganga út frá því að margir hafi glaðst þegar nafni hans hafi látið ofangreind ummæli falla. Því miður virðist þau ekki ætla að rætast.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×