Innlent

Ný lög auka hættu á stórbrunum

Ný lög og reglugerðir um söfnun og förgun úrgangs hafa skapað aukna hættu á stórbrunum og geta leitt til hættu fyrir almenning. Þetta kemur fram í skýrslu Brunamálastofnunar vegna brunans í Hringrás fyrir tveimur mánuðum. Skýrslan vekur enn fremur athygli á því að eigendur fyrirtækja hér á landi gera sér ekki nægjanlega grein fyrir lagalegri ábyrgð sinni hvað brunavarnir varðar. Brunamálastofnun hefur nú lokið úttekt sinni vegna brunans hjá Hringrás í nóvember í fyrra. Þrátt fyrir að skýrsluhöfundur komist að þeirri niðurstöðu að lítil hætta sé á að svipaður eldsvoði geti átt sér stað hjá öðrum fyrirtækjum með sambærilegan rekstur þá er óhætt að segja að nokkrum viðvörunarskotum sé skotið á loft í skýrslunni. Í skýrslunni er vakin athygli á því að ný lög og reglugerðir um söfnun og förgun úrgangs hafi leitt til þess að fyrirtækjum sé nú greitt fyrir að safna ákveðnum vörutegundum og koma þeim í endurnýtingu. Þetta geti leitt til þess að miklu magni af brennanlegum úrgangi sé safnað saman. Það geti skapað hættu á stórbruna sem leiði til þess að almenningi sé stefnt í hættu eins og sýndi sig með brunanum í Hringrás. Þá segir í skýrslunni að eigendur Hringrásar hafi ekki gert sér grein fyrir lagalegri ábyrgð sinni hvað varðar brunavarnir og að margir eigendur og stjórnendur fyrirtækja hér á landi geri sér ekki grein fyrir ábyrgð sinni. Þessu telur skýrsluhöfundur mikilvægt að ráða bót á. Í skýrslunni er enn fremur vakin athygli á því að fjögur af þeim sex fyrirtækjum á landinu sem safna saman dekkjum í þéttbýli séu nálægt íbúðabyggð og að bruni í þessum fyrirtækjum geti skapað talsverða hættu fyrir almenning.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×