Innlent

Aldraðir sætta sig við ellina

Langflestir aldraðra hér á landi virðast sætta sig við ellina, samkvæmt nýlegum rannsóknum. Sjúkdómar tengdir kvíða eru sjaldgæfari hjá öldruðum en yngra fólki. Kvíði og almenn kvíðaröskun voru til umfjöllunar á Læknadögum Fræðslustofnunar lækna og framhaldsmenntunarráðs læknadeildar. Í erindi um kvíða og ellina kom fram að þegar aldraðir misstu heilsuna væru það gjarnan eðlileg viðbrögð hjá þeim að finna fyrir kvíða en að sjúkdómar af völdum kvíða væru ekki algengir hjá þessum aldurshópi. Hallgrímur Magnússon, sérfræðingur í öldrunargeðlækningum, segir að gangstætt því sem yfirleitt sé haldið hafi komið í ljós að kvíðasjúkdómar séu sjaldgæfari hjá öldruðum en hjá yngra fólki. Ekki sé vitað hvernig á þessu standi en það kunni að skýrast af því að aldraðir hafi mikla lífsreynslu sem hinir yngri hafi ekki öðlast. Einkenni kvíða meðal aldraðra eru meðal annars óþarfa áhyggjur, eirðarleysi, hraður hjartsláttur og svefntruflanir. Hallgrímur segir viðtalsmeðferð við kvíða jafnárangursríka hjá öldruðum og hjá þeim yngri en lyfjameðferð geti verið vandasöm þar sem hún geti leitt til fíknar. Spurður að því hvernig aldraðir taki ellinni segir Hallgrímur að almennt taki fólk örlögum sínum, allir viti að þeir verði gamlir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×