Innlent

Hefur heimþrá

Cordeiro situr með félögum sínum í mötuneytinu á Kárahnjúkum og borðar kjötsúpu af bestu lyst í kuldagallanum sínum með húfu á höfði eins og tíðkast þarna. Hann er kátur og léttur í lundu og samþykkir viðtalið glaðlega eftir að borðfélagi hans hefur hafnað því kurteislega. Cordeiro segist vera kominn í ævintýraleit til Íslands, þetta sé ný reynsla fyrir sig og hann hafi ákveðið að slá til eftir að hafa hlustað á vin sinn sem hafi starfað hér. Atvinnuástandið í Portúgal sé ekki nógu gott. Cordeiro er þó ekki atvinnulaus því að hann hefur starfað í Volkswagen-verksmiðju nærri Lissabon í tíu ár. Í dag vinnur hann í táveggnum og segir ekkert vandamál að vinna úti í kuldanum því að verkamennirnir geti hlýjað sér ef það er of kalt í veðri. Cordeiro er nokkuð ánægður með aðstæður á Kárahnjúkum og segist fá miklu hærri laun en heima. Verkamennirnir hafi hér mat og sérherbergi og fái fötin sín hreinsuð reglulega. Það sé ekki heldur neinn staður til að eyða peningunum á svo að fjölskyldan í Portúgal fái þá nánast alla. Cordeiro er kvæntur og á eina dóttur sem er kominn í grunnskóla. Cordeiro hefur heimþrá og því segist hann ætla að hætta á Kárahnjúkum þegar samningurinn er útrunninn. Sumrinu ætlar hann að eyða í notalegheitum með fjölskyldunni heima.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×