Innlent

Víðtækt samstarf lögregluliða

Lögreglustjórinn á Akranesi og varalögreglustjórinn í Reykjavík ásamt yfirlögregluþjónum undirrituðu í dag samning um víðtækt samstarf lögregluliðanna í Reykjavík og á Akranesi til að styrkja löggæslu á Akranesi, Kjalarnesi, Kjósarhreppi og eftir atvikum í Mosfellsbæ. Með samningnum er leitast við að gera lögregluna sýnilegri á svæðinu, stytta viðbragðstíma vegna útkalla, auka þjónustu við borgarana og tryggja betur öryggi þeirra og um leið nýta betur fjármagn, mannafla og tæki lögreglu. Aðdragandi samningsins er sá að lögregluliðin hafa um skeið átt með sér samstarf á sviði umferðarmála í tengslum við samstarfsverkefni allra lögregluliðanna á Vesturlandi. Það samstarf heldur áfram en stjórnendur lögreglunnar í Reykjavík og á Akranesi hafa tekið ákvörðun um enn frekari samvinnu á sem flestum sviðum löggæslunnar, en ekki eingöngu umferðarmála. Lögregluliðunum er samkvæmt samningnum heimilt að sinna útköllum í hvoru umdæminu sem er og eru skjót og góð þjónusta höfð að leiðarljósi. Í neyðartilfellum skal ávallt senda þá eftirlitsbifreið sem næst er vettvangi. Þá sinna bæði liðin umferðareftirliti á svæðinu án tillits til umdæmismarka. Gert er ráð fyrir gagnkvæmri aðstoð vegna stærri verkefna sem og að veitt sé aðstoð ef ekki tekst að sinna verkefnum sökum anna, t.d. ef lögreglumenn eru uppteknir vegna tímafreks verkefnis. Vinna samkvæmt samstarfssamningnum er þegar hafin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×