Innlent

Helmingi ódýrari jarðgöng til Eyja

Sænska verktakafyrirtækið NCC telur sig geta borað jarðgöng út í Vestmannaeyjar fyrir helmingi lægra verð en Vegagerðin gerði ráð fyrir. Kostnaðaráætlun NCC hljóðar upp á 14-16 milljarða króna. Nýjar hugmyndir og forsendur í tengslum við jarðgöng frá Krossi í Landeyjum til Vestmannaeyja voru kynntar á blaðamannafundi á Grand hóteli í dag en Árni Johnsen hafði frumkvæði að því að láta kanna frekar möguleikann á jarðgöngum á þessari leið. Sænska verktakafyrirtækið NCC var fengið til að gera kostnaðaráætlun og samkvæmt henni væri hægt að bora 23 kílómetra löng göng fyrir 14-16 milljarða króna. Um fjögur ár tæki að grafa þau og tvö ár að ganga frá þeim endanlega. Árni Johnsen segir þetta ekki framtíðarmál heldur nútímamál og bendir á að það kosti um 7-8 miljarða að reka Herjólf á hverjum fimmtán árum. Vísindamenn hafa skoðað hugsanlega gangaleið til Vestmannaeyja út frá eldfjallakerfinu og virkni þess á svæðinu, auk mögulegrar tengingar við Suðurlandsskjálftabeltið. Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur segir að ekki sé að sjá neina hreyfingu á botninum sem bendi til þess að þetta sé ekki mjög virkt skjálftabelti. Nýjar gosmyndanir, þ.e. á síðustu 10 þúsund árum, hafa heldur ekki komið í ljós og því hægt að fara í mannvirkjagerð á svæðinu.  Ármann bendir á að frekari rannsókna sé þörf á berginu á svæðinu til að kortleggja nákvæmlega það svæði sem þyrfti að bora í gegnum. Eyjamenn fagna þessum hugmyndum og telja þær raunhæfan valkost sem skoða verði betur. Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir að gangagerð hefði gríðarlega þýðingu fyrir allt Suðurland. Auðveldara yrði að sameina sveitarfélögin og samnýta ýmsa þætti sem eru sveitarfélögunum þungur baggi í dag, byggð yrði blómleg og fólki myndi fjölga.    



Fleiri fréttir

Sjá meira


×