Sport

Læknirinn játaði mistökin

Sjúkrasaga knattspyrnumannsins Hauks Inga Guðnasonar er í meira lagi sorgleg. Hann sleit krossband í hné 2. apríl á síðasta ári, lagðist undir hnífinn 14. maí og missti þar af leiðandi af öllu síðasta tímabili. Undir lok ársins kom síðan í ljós að mistök höfðu verið gerð í aðgerðinni. Krossbandið hafði verið fest vitlaust og því varð að skera Hauk Inga upp aftur. Hann lagðist því undir hnífinn á nýjan leik 16. desember og fyrir vikið getur hann ekki leikið knattspyrnu í heilt ár. "Ástæðan fyrir þessari löngu hvíld er sú að ég fer í tvær aðgerðir með skömmu millibili og svo voru smá aukaskemmdir í hnénu út af mistökunum í fyrri aðgerðinni," sagði Haukur Ingi í samtali við Fréttablaðið í gær. Læknirinn sem skar hann upp í maí hefur játað mistök sín og Haukur hefur fengið staðfestingu á því að mistökin hafi átt sér stað. Þótt Haukur Ingi sé leiður yfir því að missa af tveim tímabilum hefur hann engan áhuga á því að fara í hart við lækninn. "Auðvitað er ég hundfúll enda vilja knattspyrnumenn spila en ekki horfa á leikina ofan úr stúku. Ég vil samt ekkert gera stórmál úr þessu og ég trúi ekki öðru en að hægt sé að leysa þetta mál í bróðerni," sagði Haukur Ingi, sem ber engan kala til læknisins sem gerði fyrri aðgerðina. "Það eru allir mannlegir og gera sín mistök. Ég veit vel að hann gerði þetta ekki viljandi. Það er ekkert við þessu að gera og ég tek hatt minn ofan fyrir honum að játa mistök sín. Ég hef fulla trú á því að við munum leysa þetta mál heiðarlega og á sanngjörnum nótum." Haukur Ingi og félag hans, Fylkir, telja sig eiga rétt á skaðabótum en ekki liggur fyrir hversu miklar bætur verður farið fram á enda hefur sú vinna ekki verið hafin. Mál Hauks Inga er fyrir margra hluta sakir mjög athyglisvert enda mun niðurstaðan í því vafalítið verða fordæmisgefandi. Hún mun hreinlega skera úr um það hvaða rétt íþróttamenn hafa sem verða fyrir læknamistökum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×